Af hverju notum við póstlista?

Af hverju notum við póstlista í markaðssetningu?

Póstlisti er dýrmætt markaðstól sem notað er til að byggja upp tengingu við aðdáendur okkar, en fyrir hverja krónu sem við setjum í tölvupóstmarkaðssetningu ættum við að geta fengið 38kr til baka samkvæmt rannsókn.

Við ætlum að svara nokkrum vinsælum spurningum sem varða póstlista og hvernig þú getur nýtt póstlistann þinn betur.

Af hverju póstlisti?

Ef við hugsum aðeins út í það hvað tölvupóstlisti er þá er þetta fyrst og fremst listi af fólki sem vill heyra frá fyrirtækinu þínu þar með getum við kallað þessa einstaklinga aðdáendur.

Þessir aðilar vilja kynnast fyrirtækinu þínu, heyra nýjar fréttir úr daglegum rekstri ásamt upplýsingum um breytingar á opnunartíma, tilboðum og nýjum vörum eða þjónustu.

Þar sem aðilinn skráði sig á póstlistann býst hann við að fá þessar upplýsingar og ef unnið er rétt með póstlistann hjálpar það bæði rekstraraðilum og viðskiptavinum.

Hefur póstlisti áhrif á sölu?

Já, póstlisti getur haft gríðarleg áhrif á sölu.

Bæði fyrir netverslanir þar sem við sjáum hversu mikið er selt í gegnum hvern markpóst en einnig fyrir fyrirtæki í öðrum rekstri þar sem við notum póstlista til að tengjast viðskiptavinum betur á sama tíma og við erum að auka sölu.

Sölutölur úr Mailchimp

Fyrir hvernig rekstur hentar póstlisti?

Hvort sem þú selur beint til neytenda eða til fyrirtækja þá er alltaf nauðsynlegt að geta verið í beinu sambandi við viðskiptavini. Að senda upplýsingar, fréttir og fleira á póstlista er gífurlega áhrifamikið til að tengjast viðskiptavinum betur og eykur áhuga fólks á fyrirtækinu þínu.

Það er margt hægt að gera við póstlista. Það er hægt að kortleggja ferðalag viðskiptavina í gegnum söluferlið með því að kynna fyrirtækið með sjálfvirkum markpóstum sem sendast með ákveðnu millibili eða eftir því hvar aðili stendur í kaupferli á þá sem skrá sig á póstlista.

Fyrir netverslanir er hægt að senda þakkarskeyti á þá sem kaupa, bjarga sölu með því að senda markpóst á þá sem bættu vöru í körfu en hættu við pöntun, biðja um umsögn nokkrum dögum eftir að viðskiptavinur fær pöntun afhenta, kynna ný tilboð o.fl.

Fyrir þá sem selja ekki vörur á netinu er þetta mjög mikilvæg upplýsingaveita til að kynna nýjar vörur eða þjónustur, segja frá fréttum fyrirtækisins og vera með fræðslu.

Af hverju skráir fólk sig á póstlista?

Fólk skráir sig á póstlista mjög oft út af því að þau eru hugsanlegir viðskiptavinir í framtíðinni, þau eru í fyrstu skrefunum í kaupferlinu og eru að byrja skoða en eru ekki tilbúin að kaupa strax. Þetta er gríðarlega mikilvægur hópur, þar sem þau eru líkleg til að kaupa í framtíðinni og þess vegna er mikilvægt að huga vel að þessum hóp og senda þeim efni sem hjálpar þeim að komast nær kaupum.

Hvernig á að sinna póstlistanum?

Við viljum senda virðisaukandi og fræðandi efni, kynna nýjar vörur og þjónustur og auglýsa tilboð. Við viljum ekki senda of mikið af markpóstum þar sem aðaláherslan er að selja og þvinga vörunni upp á viðskiptavininn heldur viljum við hafa gott jafnvægi á að senda efni sem eykur vörumerkjaímynd fyrirtækisins og tengist viðskiptavininum betur og efni sem hvetur til sölu.

Er slæmt ef fólk skráir sig af póstlista?

Þegar við sendum út póstlista þá er vissulega einhver sem vill í raun ekki vera á póstlistanum hreinlega vegna þess að aðilinn hefur ekki nógu mikinn áhuga á fyrirtækinu.

Þá viljum við auðvitað hvetja aðilann til að skrá sig af póstlistanum í stað þess að þvinga fleiri póstum upp á hann.

Þess vegna verður að vera skýrt hvernig á að skrá sig af póstlista.

Erum við pirrandi þegar við sendum út póst?

Eins og hefur komið fram hér að ofan þá er þessi hópur aðdáendur þínir og vilja fá fræðslu og upplýsingar um fyrirtækið. Það er ástæða fyrir því að fólk skráði sig á póstlista til að byrja með og ef þau vilja ekki fá markpósta frá þér, þá einfaldlega skrá þau sig af listanum.

Aðalmálið er að senda efni sem fólk græðir á og að það sé eitthvað virði fyrir það þegar það fær markpóst. Ef fólkið á póstlistanum fær þá tilfinningu að þau græði ekkert á efninu sem þú ert að senda eða að þú sért of mikið að reyna að selja þeim eitthvað, getur það haft áhrif á langtímasamband við póstlistann.

Er ekki nóg að nota samfélagsmiðla til að láta vita af fréttum?

Við náum til nánast allra í gegnum tölvupóst, nánast allir sem eru á internetinu nota tölvupóst.

Þar sem Facebook er með yfir milljarð notenda og Twitter með u.þ.b. 255 milljón notendur er freistandi að trúa því að samfélagsmiðlar séu áhrifaríkasta leiðin til að ná til fjöldans.

Þetta eru STÓRAR tölur, en tölfræði sem er minna talað um eru notendur tölvupósts.

Heildarfjöldi notenda tölvupósts eru u.þ.b. 4 milljarðar samkvæmt rannsókn.

Þessi tölfræði getur komið á óvart en ef þú hugsar um þína hegðun á netinu þá kveikir það á peru. Þegar við stofnum reikning inn á vefsíðu þá verðum við að gefa upp netfang.

Þú þarft meira að segja að gefa upp netfang eða símanúmer þegar þú stofnar reikning á samfélagsmiðlum og þú ert látin vita þegar þú ert merktur í mynd á Facebook í gegnum tölvupóst.

Þegar það kemur að því að ná til viðskiptavina þinna þá eru fáir samfélagsmiðlar sem gera það betur en tölvupóstur.

90% af tölvupóstum komast til skila en aðeins 2% af Facebook fylgjendum sjá færsluna í fréttaveitunni.

Hvernig og hvenær á ég að byrja með póstlista?

Það er aldrei of seint að byrja að safna á póstlista.

„Best er að gróðursetja tré fyrir 20 árum, næst best er að gera það núna.“

Við mælum með því að nota kerfi til að halda utan um póstlistann þar sem hægt er að senda út markpóst með áhrifaríkum leiðum og fylgjast með tölfræði eins og hvort viðskiptavinir opna á póstinn eða versla í vefverslun eftir að pósturinn sendist út.

Kerfi eins og Mailchimp gerir okkur kleift að setja upp sjálfvirkni til þess að fylgja eftir kaupum ásamt mörgum öðrum leiðum og virkar í raun eins og CRM kerfi sem hjálpar okkur að taka upplýstar markaðslegar ákvarðanir.

Þú getur stofnað þinn póstlista frítt í dag ef þú skráir þig inn í gegnum þennan link

What’s Up?

HAFÐU SAMBAND