Retargeting – Lykill dagsins 4/7

Retargeting

Viðskiptavinurinn getur verið óákveðinn, ef hann fær bara að sjá vöruna einu sinni þá er ólíklegt að hann kaupi hana. Við viljum því minna þá sem eru líklegir til að kaupa vöruna sem oftast á hana með auglýsingum sem eru sérsniðnar að þeim markhóp. Retargeting er mjög áhrifarík leið til að hjálpa til við það. Segjum sem svo að viðskiptavinurinn sé búinn að sjá vöruna þína á nokkrum mismunandi stöðum, Facebook, Instagram, LinkedIn, o.s.frv. Hann smellti á hnappinn á auglýsingunni sem leiddi hann á heimasíðuna þína en enn og aftur, þá er hann óákveðinn. Hver þekkir ekki að finna ótal ástæður fyrir að gera ekki eitthvað? Hann veit til dæmis ekki hvort hann þurfi vöruna nauðsynlega, hvort varan sé ódýrari hjá samkeppnisaðila og þetta fær hann til að loka síðunni þinni aftur. En núna veist þú, með hjálp Pixel, að hann hefur áhuga, hann er hluti af þessum “heita hóp” af líklegum kaupendum. Retargeting er einfaldlega tól til að einangra þennan markhóp og með því getur þú sérsniðið auglýsingarnar þínar til að ná sem mestum árangri. Að sjálfsögðu getur verið að viðskiptavinurinn hafi bara ekki haft tíma til að klára kaupin eða gleymt kortinu sínu heima en það kemur á sama stað niður, þetta er hópur sem er líklegur til að versla við þig og því getur verið árangursríkt að beina auglýsingum eða tölvupóstum að þeim. Fólk sem skoðar vörurnar þínar en kaupir ekki þarf bara smá auka hvatningu til að klára kaupin. Vel tímasettur tölvupóstur með afsláttartilboði eða jafnvel bara áminningu um vöruna sem þau voru að skoða getur aukið sölur töluvert.

Eltiauglýsingar (e. retargeting) eru auglýsingar sem ná til fyrrum kaupenda, fólks sem hefur heimsótt vefsíðuna þína eða gefið þér upplýsingarnar sínar með því að skrá sig á póstlistann þinn. Þessar auglýsingar byggja þá á internetaðgerðum fólks til að hámarka árangur.

Kostir retargeting auglýsinga eru fjölmargir en þar stendur þó upp úr hvað þú getur sérsniðið auglýsingarnar þínar að hverjum og einum notanda. Þessar auglýsingar hjálpa þér að halda vörunni þinni efst í huga þeirra fólks, sem samkvæmt hegðun þeirra á internetinu er líklegast að versla við þig. Þessi “heiti hópur” hefur oft mjög hátt ROAS (e. return on advertising spent) sem minnkar óþarfa eyðslu í auglýsingar og hækkar einnig gróðann.

Tökum sem dæmi að þú sért að selja stól. Ákveðinn viðskiptavinur fer alla leið í kaupferlinu en á bara eftir að smella á kaupa takkann þegar hann hættir við. Þessi viðskiptavinur er mun líklegri til að kaupa stól af þér heldur en margir aðrir og því þess virði að eltast við. Þú gætir til að mynda sent á hann tölvupóst um að ef hann komi aftur og klári kaupin núna fái hann 5% afslátt. Sérsniðnar auglýsingar og tölvupóstar til þessa markhóps er oftast mjög áhrifarík söluaðferð.

Með retargeting getur þú minnt notandann á vörur eða síður sem hann hefur skoðað og hvatt hann til að fara lengra í kaupferlinu. Einnig getur það aukið vitund um vörur, eiginleika, tilkynningar eða bara hvað sem þú ákveður að beina athygli notandans á.

Retargeting er að sjálfsögðu ekki bara hægt á Facebook og Instagram, það er einnig hægt á LinkedIn, Youtube, Twitter, E-mail o.s.frv. Facebook Pixel, LinkedIn Insight Tag, Google Analytics fylgja notendunum um vefsíður með vafrakökum (e. cookies) sem safna upplýsingum um internethegðun notandans. Fólk sem hefur like-að síðuna þína, horft á ákveðið mikið af myndbandi, skoðað vörurnar þínar á heimasíðunni, skráð sig á tölvupóstlistann þinn og margt margt fleira er allt í boði til að retargeta. Facebook, LinkedIn og Google búa þá yfir fullt af upplýsingum um fólk sem hægt er að nota til að sníða auglýsingarnar vel að hverjum og einum notanda.

What’s Up?

HAFÐU SAMBAND